Æðaskurðlækningar

Sérgreinin æðaskurðlækningar fæst við sjúkdóma í stærri slag- eða bláæðum þar sem aðgerðir eru mögulegar.
Aðgerðir geta verið opnar skurðaðgerðir eða innæðaaðgerðir framkvæmdar í æðaþræðingu.


Sjúkdómar í slagæðum eru einkum af tvennum toga, æðakölkun eða æðagúlar.

Æðakölkun er algengur kvilli sem sjá má hjá flestum með hækkandi aldri. Orsakir eru margþættar en helstu áhættuþættir eru: reykingar, sykursýki, hár blóðþrýstingur, háar blóðfitur og hækkandi aldur.
Æðakölkun getur þrengt eða lokað slagæðum, sem leiðir til minnkaðs blóðflæðis. Í ganglimum getur þetta leitt til skerts gönguþols, en í alvarlegri tilfellum stöðugs verks, sára sem ekki gróa, dreps
eða jafnvel útlimamissis. Ekki er alltaf mögulegt eða skynsamlegt að fara út í aðgerðir vegna æðakölkunar í ganglimum. Ef til aðgerða kemur, hvort heldur er um að ræða oppna aðgerð eða innæðaagerð
(víkkun/blástur með eða án stoðnets) eru þær framkvæmdar á spítala. Í hálsslagæðum eykur æðakölkun hættu á heilablóðfalli. Flestir eru meðhöndlaðir með lyfjum sem draga úr hættunni t.d. hjartamagnýl
og blóðfitulækkandi lyfjum, en í völdum tilfellum getur opin skurðaðgerð komið til greina.

Langalgengasta form æðagúlssjúkdóms er gúll í ósæð í kvið. Ef gúllinn nær ákveðinni stærð er hætta á að æðin rofni sem í flestum tilfellum leiðir til dauða. Ef þekktur gúll nær ákveðinni stærð er því
oftast reynt að laga hann áður en til rofs kemur. Valið stendur þá á milli opinnar skurðaðgerðar eða innæðaðgerðar þar sem gúllinn er fóðraður í æðaþræðingu. Hvor leiðin er valin ræðst m.a. af útliti
gúlsins og afstöðu til annarra æða. Aðgerðir hvort heldur er opin eða innæðaaðgerð eru framkvæmdar á spítala.


Þeir bláæðasjúkdómar sem æðaskurðlæknar fást einkum við eru sjúkdómar í djúpum bláæðum ganglima, þar sem aðgerðum verður þó ekki viðkomið nema í undantekningar tilfellum og sjúkdómar í grunnum bláæðum
ganglima, einkum æðahútar og æðaslit, en um þá er fjallað í sér kafla.